Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,38% í dag en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 2,2 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,03% og stendur því í 1.362,96 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu rúmlega 6 milljörðum króna.

Aðeins tvö félög hækkuðu í dag, Reginn og HB Grandi. Reginn hækkaði meira eða um 0,39% í 236 milljóna veltu og stóðu bréf félagsins því í 26,00 krónum við lok dags. HB Grandi hækkaði um 0,07% í 86 milljóna króna veltu og standa bréf útgerðarinnar nú í 33,40 krónum.

Mest lækkun var á bréfum Nýherja en þau lækkuðu um 3,88% í 49 milljóna króna viðskiptum og stóðu í 26,00 krónum við lokun markaða. Næst mest lækkuðu bréf Össurar eða um 3,02%. Í dag er síðasti viðskiptadagur með bréf Össurar í íslensku Kauphöllinni en félagið flytur sig nú alfarið í kauphöllina í Danmörku.

Líkt og í gær voru mest viðsipti með bréf Marel en þau námu 539 milljónum króna. Marel lækkaði um 1,53% og standa bréf þess í 322,50 krónum.