Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,34%, upp í 2.025,41 stig, en heildarviðskiptin í dag námu 2,5 milljörðum króna. Mest hækkun var á gengi Icelandair, í 115 milljón króna viðskiptum, en bréfin hækkuðu um 1,90% upp í 6,98 krónur.

Næst mest hækkun bréfa var ekki á Aðalmarkaði heldur First North markaðnum þar sem bréf Icelandic Seafood hækkuðu um 1,89%, upp í 9,70 krónur, í 183 milljóna króna viðskiptum. Þriðja mesta hækkunin, og jafnframt mestu viðskiptin, voru á bréfum Reita, en þau námu 422 milljónum og fóru bréfin upp um 1,31% í 8,10 krónur.

Mest lækkun var hins vegar á bréfum Símans, eða um 0,64% í 358 milljóna króna viðskiptum. Fóru bréfin niður í 4,67 krónur. Þess má jafnframt geta að bréf Össurar lækkuðu um 1,73% í dönsku kauphöllinni í dag, niður í 48,30 danskar krónur.

Pundið styrkist

Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, nema breska pundinu og norsku krónunni. Hækkaði gengi sterlingspundsins um 0,19% upp í 125,36 krónur en Viðskiptablaðið fjallaði í dag um styrkingu pundsins í aðdraganda þess að þinghlé hófst í landinu í dag.

Norska krónan hækkaði meira, eða um 0,26% gagnvart þeirri íslensku upp í 14,054 krónur. Hins vegar veiktist Bandaríkjadalurinn um 0,32%, í 125,36 krónur og evran um 0,14%, í 138,64 krónur.