*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Innlent 14. janúar 2020 13:14

Össur lækkar afkomuspá

Sala á síðasta ársfjórðungi 2019 dró afkomu ársins niður. Verð á bréfum félagsins í dönsku kauphöllinni lækkaði.

Jóhann Óli Eiðsson
Jón Sigurðsson er forstjóri Össurar.
Aðsend mynd

Heildarsala Össurar samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir nýliðið ár var um prósentu lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Ástæðan fyrir þessu er minni sala á síðasta ársfjórðungi ársins en það má rekja til samdráttar til ákveðins viðskiptavinar og á tilteknum mörkuðum. Talið er að um tímabundinn samdrátt sé að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Samkvæmt tilkynningunni nam sala á árinu 2019 686 milljónum bandaríkjadollara sem samsvarar 5% innri vexti og 16% heildarvexti. Afkomuspáin gerir ráð fyrir því að EBITDA, leiðrétt fyrir einskiptisliðum, nemur 150 milljónum dollara eða ríflega fimmtungi af heildarsölu. Sala á fjórða ársfjórðungi námu 180 milljónum dollara eða 1% innri vexti og 10% heildarvexti. Bráðabirgðatölurnar hafa ekki verið yfirfarnar af endurskoðanda.

„Bráðabirgðauppgjör fjórða ársfjórðungs veldur vonbrigðum en salan á árinu er mikil með 16% heildarvexti og 5% innri vexti. Þrátt fyrir tímabundinn hægagang í sölu stoðtækja á fjórða ársfjórðungi erum við fullviss um að markaðsstaða okkar haldi áfram að vera sterk og við gerum ráð fyrir áframhaldandi innri vexti árið 2020. Arðsemi liðins árs var minni en við reiknuðum með sem má að mestu leyti rekja til minni sölu en ráð var gert fyrir á fjórða ársfjórðungi,“ er haft eftir forstjóranum Jóni Sigurðssyni í tilkynningunni.

Áður en afkomuspáin birtist hafði hlutabréfaverð Össurar í kauphöllinni í Kaupmannahöfn hækkað um 76% á síðastliðnu ári en frá því að spáin birtist hefur gengi bréfanna lækkað um 5% og stendur þegar þetta er skrifað í 53,6 dönskum krónum á hlut.  

Össur mun birta uppgjör fjórða ársfjórðungs og ársskýrslu sína þann 4. febrúar næstkomandi.

Stikkorð: Össur