*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 12. mars 2015 14:03

Össur lækkar hlutafé

Ákvörðun var tekin um að lækka hlutafé Össurar á aðalfundi félagsins sem fram fór í morgun.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Haraldur Guðjónsson

Aðalfundur Össurar fór fram nú í morgun, en á fundinum var tekin ákvörðun um að lækka hlutafé félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Ákvörðun um að leggja til hlutafjárlækkunina var tekin í nóvember síðastliðnum þegar félagið keypti 9.863.578 hluti í sjálfu sér fyrir samtals 3,59 milljarða króna. Eftir kaupin átti það samtals 12.106.755 hluti í sjálfu sér, en þá tilkynnti félagið að það hygðist leggja til lækkun hlutafjár á aðalfundi ársins 2015 sem næmi andvirði kaupanna.

Hlutfjárlækkunin tekur til 7.456.755 hluta og lækkar skráð hlutafé úr kr. 453.750.000 að nafnverði í kr. 446.293.245 að nafnverði.

„Þetta er í samræmi við okkar stefnu. Við höfum gefið það út að við viljum koma peningum út til hluthafa og gerum það með þessum kaupum. Í samræmi við áðurútgefna stefnu munum við svo leggja til að bréfin verði felld úr gildi á næsta aðalfundi,“ sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, í samtali við Viðskiptablaðið í nóvember síðastliðnum þegar félagið keypti eigin hluti.

Gert er ráð fyrir að lækkunin verði skráð innan tveggja vikna.

Stikkorð: Jón Sigurðsson Össur