„Þetta er svo sérstakur dagur að maður er meyr og orða vant. Eins og sólargeisli inn í grámóskun. Sigur íslands var svo algjör að ESA sem kærði okkur var dæmt til að greiða málskostnað. Til hamingju Ísland,“ sagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Hann gaf í dag Alþingi munnlega skýrslu um dóm EFTA-dómstólsins í Icesave-málinu.

Össur greip til sterkra orða í skýrslugjöf sinni, sagði málsvörn íslenska teymisins undir forystu Tim Ward meistaraverk og niðurstöðuna sýna að EFTA-dómstólnum hafi þótt kæra ESA í Icesave-málinu fráleita enda þar tekið til greina allra raka íslenska málsvarnarteymisins fyrir utan hugsalega eins liðar.

Össur sagði Icesave-málið hafa legið eins og mara á þjóðinni í fjögur ár. Niðurstaðan sýni að bæði þingmenn og þjóðin hljóti að læra að samstaða sé góð fyrir landið.

„Þetta eru kaflaskil í eftirmálum hrunsins, nú er langri leiðindasögu lokið. Við þurfum ekki að fá Icesave-málið eins og níðþungt blýlóð ofan á herðarnar,“ sagði hann.