Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) veitir í níunda sinn Íslensku þekkingar­verðlaunin. Að þessu sinni eru verðlaunin veitt því fyrirtæki sem skarað hefur fram úr á sviði nýsköpunar segir í tilkynningu félagsins. Þau fyrirtæki, sem tilnefnd eru til Íslensku þekkingarverðlaunanna í ár, eru Össur, Marel og CCP.

Sérstök dómnefnd sker úr um hvert ofangreindra þriggja fyrirtækja hlýtur Íslensku þekkingar­verðlaunin. Áður hefur Actavis hlotið verðlaunin þrívegis en hin fyrirtækin, sem hlotið hafa þekkingarverðlaunin, eru Össur, Kaupþing, Glitnir, Marel og Íslensk erfðagreining.

Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (FVH) efnir til ráðstefnunnar og verðlauna­afhendingarinnar Íslenska þekkingardagsins föstudaginn 13. febrúar 2009 í Salnum, Kópavogi. Þemað að þessu sinni er Tækifæri á nýjum tímum – Nýsköpun!