Það verða birt uppgjör fimm félaga sem skráð eru í úrvalsvísitöluna í þessari viku, samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum.

Landsbankinn og Glitnir birtu uppgjör sín í dag (nánar er farið í þau annarsstaðar á vefnum), Össur birtir á morgun, Marel á föstudaginn og Kögun undir lok vikunnar.

Össur tapar á fyrsta ársfjórðungi

Greiningardeild Landsbankans reiknar með 1,3 milljón dollara tap (96 milljónir króna) verði af rekstri Össurar á fyrsta ársfjórðungi sem má rekja til kostnaðar við kaup og samþættingu fyrirtækja inn í samstæðuna, afskrifta óefnislegra eigna sem og neikvæðs gengismunar vegna veikingar dollars gagnvart evru.

Marel hagnast um 112 milljónir króna

Hagnaður Marels er áætlaður 1,2 milljónir evra (112 milljónir króna), en greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að veiking krónunnar komi sér vel í rekstri Marels enda er töluvert ósamræmi í tekju- og gjaldaskiptingu gjaldmiðla.

?Veiking krónunnar leiðir því til aukinnar framlegðar hjá félaginu," segir greiningardeildin sem býst við að EBIT framlegð verði 6,6% af veltu á fjórðungnum.

Kögun græðir á veikingu krónu

Veiking krónunnar hefur einnig jákvæð áhrif á Kögun þar sem félagið er með um helming af sinni starfsemi erlendis. ?Veikingin er þó líkleg til að setja nokkurn þrýsting á framlegð hér heima, sérstaklega í vélbúnaðarhlutanum," segir greiningardeildin sem gerir ráð fyrir að 155 milljóna króna hagnaður verði af rekstrinum á fyrsta fjórðungi sem er töluvert betri rekstrarniðurstaða en á sama tíma í fyrra.