Hið vinsæla tímarit Popular Science hefur valið Power Knee, rafknúið gervihné frá Össuri hf., bestu nýjung ársins í flokki tækniframfara á heilbrigðissviði.

Fjallað er um verðlaunin í desemberhefti tímaritsins, en blaðið hefur veitt þau frá árinu 1987. Þúsundur tækninýjunga eru metnar og 100 veitt verðlaun í 10 flokkum. Lesendur blaðsins eru um 6,5 milljónir.

Í tilefni af verðlaununum var í gær opnuð sýning í Grand Centra Stadion á Manhattan í New York. Þar hefur Össur bás ásamt ýmsum fyrirtækjum á borð við Nokia og fleiri.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði á blaðamannafundi í New York í gær að verðlaunin væru fyrirtækinu mikils virði. Power Knee er nú á lokastigi þróunar og kemur væntanlega á markað á næsta ári. Það er fyrsti rafknúni gervilimurinn sem hefur lyftikraft og hjálpar þannig notendanum að standa á fætur, ganga upp stiga og svo framvegis. Fullkomin gervigreindarbúnaður skynjar hreyfingar notandans og umhverfis hans og bregst við með viðeigandi hætti.

Í fyrra setti Össur á markað gervihnéð Rheo sem vakti mikla athygli og hlaut margskonar verðlaun. Það var einnig búið gervigreind en hafði hins vegar ekki lyftikraft. Power Knee hefur verið um fjögur ár í þróun og nemur þróunarkostnaður nokkrum milljónum Bandaríkjadala en nákvæm tala er ekki gefin upp. Hnéð var þróað í samvinnu Össurar og kanadíska fyrirtæksins Victhom.