Hagnaður Össurar árið 2014 var 59 milljónir bandaríkjadala í samanburði við 41 milljón bandaríkjadala árið 2013. EBITA jókst einnig um 38% á milli ára.

„Afkoma Össurar hefur batnað milli ára samfellt síðustu sjö ársfjórðunga, mælt í framlegð af reglulegri starfsemi,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson hjá Arion banka.

„Uppgjör fjórða ársfjórðungs var þar engin undantekning og kom ekki á óvart. Afkoman var í takti við þá áætlun sem félagið uppfærði í nóvember og sama má segja um fjárfestingar. Össur gerir upp í dollar en selur vörur sínar í fleiri gjaldmiðlum. Styrking dollars hefur þar af leiðandi töluverð áhrif á bókfærðar tekjur,“ segir Jóhann Viðar Ívarsson hjá IFS greiningu.

Þannig hafi bókfærður tekjuvöxtur verið innan við 1% á fjórða ársfjórðungi þó svo innri vöxtur án gjaldmiðlaáhrifa hafi verið um 5%.

„Ef fram heldur sem horfir mun þróun gjaldmiðla halda áfram að lita uppgjör Össurar á þessu ári og því skiptir máli að rýna í gegnum þau áhrif. Össur náði aftur vopnum sínum á árinu 2014 eftir vandræði í stoðtækjasölu á Bandaríkjamarkaði á árunum 2012-2013,“ segir Jóhann.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .