Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og staðgengill utanríkisráðherra, og Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, hittust á leynifundi í iðnaðarráðuneytinu í morgun, þar sem mögulegt samstarf flokkanna - kæmi til stjórnarslita - var meðal annars rætt.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, lýsti því yfir í dag að flokkur hans væri tilbúinn til að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG - gegn því að þingkosningar fari fram eigi síðar en 25. apríl næstkomandi. Vinstri grænir vilja líka kosningar sem fyrst og eru á þeim forsendum tilbúnir til að fara í bráðabirgðastjórn með Samfylkingu. Boltinn er því hjá síðarnefnda flokknum.

Ljóst er að mikil undiralda hefur verið í stjórnarflokkunum tveimur að undanförnu og hafa mótmælin síðustu daga ekki dregið úr spennunni. Stjórnarsamstarfið hangir á bláþræði.

Stjórnarþingmenn sem Viðskiptablaðið ræddi við segja ólguna krauma meðal annars vegna þess að kröfunni um breytingar í þjóðfélaginu í kjölfar bankahrunsins hafi ekki verið svarað. Þá er Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndur fyrir að „taka ekki af skarið með neitt," eins og það var orðað og kemur sú gagnrýni líka frá þingmönnum Sjálfstæðisflokks.

Nánar í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.