Össur hf. hefur ákveðið að óska eftir skráningu hlutabréfanna í kauphöll Nasdaq OMX í Kaupmannahöfn. Hlutabréfin verða þó áfram skráð í kauphöll Nasdaq OMX hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu, þar sem segir að skráningin í Kaupmannahöfn sé rökrétt skref fyrir félagið og veiti aðgang að alþjóðlegum fjárfestum. Félagið gerir ráð fyrir að skráningin verði samþykkt í næstu viku.

Í tilkynningunni er haft eftir Jóni Sigurðssyni, forstjóra, að skráningin á Íslandi hafi reynst vel og að félagið muni áfram leggja metnað sinn í að þjóna núverandi hluthöfum og nýjum. „Kaupmannahöfn er eðlilegt framhald fyrir félagið. Skráningunni er ætlað að auka viðskipti með hlutabréf í félaginu, stuðla að eðlilegri verðmyndun þeirra og styðja við framtíðarvöxt,“ segir Jón.

Stjórn félagsins íhugar 5-7% hlutafjáraukningu í framhaldi af skráningunni til að auka viðskipti með bréfin.