*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 8. desember 2015 20:00

Össur ráðleggur Brynjari að striplast

Brynjar Níelsson veltir fyrir sér listamannsferli - og hefur skothelda áætlun sem mun tryggja honum frama.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Alþingismaðurinn Brynjar Níelsson, sem situr fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, birti í dag stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann veltir fyrir sér ferli í listaheiminum.

Brynjar segir Össur Skarphéðinsson, kollega sinn frá Samfylkingu, hafa lagt til að hann yrði að gera eitthvað til að koma stjórnmálaferlinum almennilega á flug:

Lagði hann til að ég gengi um berrassaður á þinginu næstu vikuna. Það vekti örugglega talsverða athygli og kalla fram ýmis hughrif hjá þjóðinni. Helstu menningarvitar þjóðarinnar myndu vart halda vatni af hrifningu. Konan myndi kyssa mig og knúsa að þeim gerningi loknum. Þetta yrði sérstaklega áhugavert því ég hefði verið svo stutt á þingi.

Brynjar segist því næst hafa spurt forseta þingsins álits og hvort hann gerði einhverjar athugasemdir við þessar háleitu áætlanir.

Honum leist mjög vel á þessa hugmynd enda allir menningar-og listaviðburðir líklegir til að auka virðingu þingsins. Lagði þó áherslu á að ég færi ekki inn í þingsalinn án hálstaus. Einnig væri ágætt að ég fitlaði ekki við mig í matsalnum.