Í viðtali við Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og fyrrv. formann Samfylkingarinnar, sem verður ekki hjá því komist að rifja upp bankahrunið 2008.

Í áramótatímariti Viðskiptablaðsins sem kom út í gær er að finna ítarlegt viðtal við Össur þar sem hann fer m.a. yfir stjórnmálin í dag, möguleika Íslands í framtíðinni og nauðsyn þess að skipta út forystunni í Samfylkingunni. Þá tjáir Össur sig í fyrsta sinn í langan tíma um landsfund Samfylkingarinnar árið 2005 þegar hann varð undir í formannskosningu.

Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er birtur hér í heild sinni.

Össur var sem kunnugt er iðnaðarráðherra í þeirri ríkisstjórn sem sat þegar bankahrunið átti sér stað haustið 2008. Blaðamaður spyr hvort hann líti svo á að Samfylkingin sé stikkfrí af ábyrgð sinni á hruninu.

Hann svarar því neitandi, en bendir á að skv. skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafi bankarnir árið 2006 verið komnir í þá stöðu að ekki hefði verið hægt að bjarga þeim. Samfylkingin hafi komið inn í ríkisstjórn sumarið 2007 en þá hafi ekki verið aftur snúið með hrun bankakerfisins skv. rannsóknarskýrslunni.

„Það hefur enginn sloppið við hrunið nema kannski Framsóknarflokkurinn, sem var þó búinn að vera 11 ár í ríkisstjórn áður en kom að þeim tímapunkti sem rannsóknarskýrslan segir að Ísland hafi verið byrjað að hrapa fyrir bjargið,“ segir Össur.

„Það kann að stafa af því að Sigmundur Davíð er kænn stjórnmálamaður og hefur með mjög afdráttarlausum hætti afneitað fortíðinni og fyrrum forystumönnum flokksins. Hann heldur því einfaldlega fram Framsókn sé endurfædd og beri ekki ábyrgð á neinu. Það er rétt í hans tilviki enda nýfæddur inn í pólitíkina. En Framsókn er ekki sögulaus þegar kemur að hruninu.“

Aðspurður segir Össur að haustið 2008 hafi reynst mjög erfiður tími og nauðsynlegt hafi verið að taka stórar og afdrífaríkar ákvarðanir.

„Sagan hefur sýnt að mikilvægar ákvarðanir sem voru teknar í gríðarlegri hraðskák í flókinni stöðu reyndust réttar. Neyðarlögin björguðu því sem bjargað varð og nú liggur fyrir hæstaréttardómur sem staðfestir lögin,“ segir Össur. „Það er líka rétt að hrósa þeim sem hrós eiga skilið fyrir afrek sín á þessum dögum. Þar vil ég ekki síst nefna þá Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson. Þetta voru lykilmennirnir og hafa hvorugur notið þess að verðleikum.“

Annar þeirra sætir nú ákæru og þarf að svara fyrir dómi, skýtur blaðamaður inn í og vísar þar til ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde.

Það má greinilega heyra á Össuri að landsdómsmálið situr í honum.

„Það er sárgrætilegt að Geir skuli vera í þeirri stöðu að sitja fyrir landsdómi. Ég greiddi atkvæði gegn því og taldi út í hött að setja einn mann á sakabekk,“ segir Össur.

„Þar fyrir utan voru upphaflegar sakargiftir mjög óljósar og nú þegar er búið að vísa þeim langalvarlegustu frá. Geir verður sýknaður af þessu máli en landsdómsleiðina átti aldrei að fara.”

En er ekkert undarlegt að sitja í ríkisstjórn þar sem samstarfslokkur ykkar keyrði þetta mál áfram af mikilli hörku? Var ekkert tekist á um þetta mál á milli ykkar ráðherranna?

„Jú, milli einstakra ráðherra en þetta var aldrei rætt við ríkisstjórnarborðið. Um þetta voru líka miklar umræður í þingflokki Samfylkingarinnar sem að lokum klofnaði í málinu. Þetta var mjög erfitt mál innan okkar flokks,“ segir Össur.

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
© BIG (VB MYND/BIG)