Samfylkinguna skortir kraft og áræðni, og eftir setu í þremur ríkisstjórnum í beit þarf flokkurinn að endurnýja hugmyndir sínar í takt við nýjan veruleika. Þetta segir Össur Skarphéðinsson þingmaður Samfylkingarinnar í viðtali við Fréttablaðið í dag.

Samfylkingunni hefur ekki tekist að endurskapa hugmyndir sínar um jöfnuð og jöfn tækifæri í ljósi nýrra aðstæðna eftirhrunsáranna, segir Össur. „Svo það sé sagt umbúðalaust þá vantar kraft og áræði í flokkinn.“

Össur segist þó handviss og til í að veðja um úrslit næstu kosninga. „Miðað við pólitíska stöðu dagsins er ég til í að bjóða hverjum sem er upp á veðmál um að ríkisstjórnin muni falla í næstu kosningum,“ segir hann.

Hefur ekki trú á íslensku krónunni

„Þó að efnahagsmálin gangi vel innan gjaldeyrishafta og hagvöxtur hafi verið góður síðan 2010 spáir Seðlabankinn verðbólgu og boðar vaxtahækkanir. Þar er krónan sökudólgurinn. Hún er uppspretta og magnari sveiflna,“ er haft eftir Össuri.

„Þá verða menn að spyrja sig: Dugar krónan sem gjaldmiðill? Svarið er nei. Hún er löngu fallin á prófinu og er að gera Ísland að láglaunaþjóð,“ segir þingmaðurinn.

„Þá eru fjórir valkostir. Norðmenn gáfu þeim drag í afturendann sem vildu taka upp norsku krónuna, Seðlabankinn sagði afleik að taka upp Kanadadollar, við höfum lítil viðskipti við Bandaríkin þó að Bandaríkjadalur sé að standa sig vel, en okkar stærsta viðskiptasvæði er Evrópa. Í mínum augum er það bara evran sem kemur til greina.“

Sósíaldemókratískur heiðurspírati

Össur talar um sig sem sósíaldemókratískan heiðurspírata í viðtalinu. Hann hefur verið viðriðinn sérstakan Facebook-hóp sem kallast Pírataspjallið, en þar ræða menn innan sem utan flokks Pírata allt milli himins og jarðar.

„Ég man varla eftir þingmáli frá þeim sem ég gat ekki stutt og þeir hafa stutt mörg mál okkar í Samfylkingunni.“

Össur segist glaður að Píratar skuli vera að draga til sín það mikla fylgi sem þeir mælast með.

„Vitaskuld þykir mér súrt í broti að minn flokkur sitji eftir en í þeirri stöðu get ég ekki annað en glaðst yfir að það skuli vera Píratar, sem ég lít á sem pólitíska frændur og frænkur, en ekki hægri flokkur, sem rífur til sín fylgi,“ segir heiðurspíratinn.

Samfylking með sögulega lágt fylgi

Viðtalið er tekið í kjölfar skoðunarkönnunar sem sýnir að Samfylking mælist sögulega lág, eða með um 8% fylgi. Fylgi Framsóknarflokksins hefur svo fallið gífurlega ef marka má könnunina, en flokkurinn mælist aðeins með 9,9% fylgi miðað við að í síðustu kosningum hlaut hann 24% atkvæða.

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 39% fylgi og Píratar með 36% fylgi. Björt framtíð mældist aðeins með 2,9% fylgi, og Vinstri græn með 9% fylgi. Viðskiptablaðið fjallaði um könnunina áður.