Össur er í viðræðum um sölu á franska dótturfélagi sínu, Gibaud SAS, við franska fyrirtækið Innothera. Kaupsamningurinn er háður samþykki stéttarfélaga starfsmanna Gibaud og Innothera en búist er við að samningarnir verði undirritaðir á seinni helmingi ársins, segir í tilkynningu Össurar .

Gibaud Group, sem Össur eignaðist árið 2006, starfar í Frakklandi á sviði þróunar og framleiðslu á stuðningstækjum með sérstakri áherslu á spelkur og vörur til notkunar við blóðrásarmeðferðir (e. phlebology).

Sala Gibaud nam 51 milljón dollara árið 2019 en um 360 manns starfa hjá fyrirtækinu sem rekur tvær verksmiðjur í Frakklandi. Heildarvirði (e. enterprise value) Gibaud er metið á 24 milljónir dollara, eða um 3,4 milljarðar króna. Einskiptiskostnaður vegna mögulegu kaupanna er áætlaður að verði 3-4 milljónir dollara.