„Ég er að setja eggin í fleiri körfur,“ segir Össur Kristinsson, stofnandi Össurar hf., sem seldi í dag hlutabréf í félaginu að andvirði 1,5 milljarði íslenskra króna. Um var að ræða tólf milljónir hluta sem er um 2,7% af öllu hlutafé félagsins

Eftir viðskiptin segist Össur eiga um fimm prósent hlutafjár í Össuri hf. Hann hafi lýst því yfir þegar félagið var skráð á markað að hann ætlaði að halda sínum hlut í tíu ár til viðbótar. Fimm prósent séu fimm prósent og þau ekkert búin að yfirgefa Össur.

„Ég rek tvö fyrirtæki sem eru í þróunarstarfsemi. Þau eiga hug minn núna,“ segir Össur aðspurður af hverju hann einbeitir sér þessa dagana.

Um er að ræða fyrirtækið OK Prosthetics, sem vinnur að því að útvega gervilimi fyrir fólk í þróunarlöndunum. Hitt fyrirtækið er OK Hull þar sem unnið er að hönnun báta sem nota minni orku og ná meiri hraða en þeir sem fyrir eru.