Stoðtækjaframleiðandinn Össur hf.hefur ákveðið að leggja sitt af mörkum til hjálpastarfsins á Haíti og gefa þangað vörur sem læknar hafa sérstaklega óskað eftir til að hjálpa þeim sem verst urðu úti. Meðal þeirra vara sem Össur hyggst gefa eru gervilimir til handa þeim sem misstu útlimi í jarðskjálftanum sem reið yfir Haítí þann 12. janúar síðastliðinn

Í tilkynningu frá Össuri vegna þessa segir að fyrirtækið vinni að verkefninu í samstarfi við Project Medishare ( www.projectmedishare.org ) sem eru ein fárra samtaka sem hafa beinan aðgang að flugvellinum í Port-au-Prince, auk þess sem læknar og hjúkrunarfólk á vegum samtakanna huga að særðum á Haítí.

„Hinir hörmulegu atburðir á Haítí hafa látið engan ósnortinn og okkur sem stoðtækjaframleiðanda ber skylda til þess að gefa vörur til hins mikilvæga hjálparstarfs sem nú stendur yfir í landinu,“ segir Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.