Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, segir mikilvægt að skoða IPA-styrkina betur sem veittir eru þeim ríkjum sem eiga í viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Hún spurði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra að því í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag á hvaða lagagrein hann byggi þá skoðun sína að ekki þurfi að endurgreiða þá. Ekkert segi til um að ekki þurfti að greiða þá til baka. Samkvæmt skilgreiningu á styrkjunum sé Ísland aðlögunarþegi Evrópusambandsins.

Össur vísaði þessu á bug í svari sínu til Vigdísar og sagði ekki verið að laga stjórnsýslustofnanir landsins að regluverki Evrópusambandsins. Þvert á móti hafi verið farið að vilja stjórnarandstöðunnar og sett af stað tímasett aðgerðaráætlun með hvaða hætti stjórnsýslukerfinu verður breytt eftir að þjóðin hefur gefið jáyrði sitt fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Hann bætti við:

„En þekking mín á íslensku máli er ekki svo djúp að ég þekki orðið aðlögunarþegi. Við erum ekki að breyta stofnunum okkar og lögum. Allt hvílir þetta á því að þjóðin segi já. Ef þjóðin segir nei þá þarf ekki að greiða styrkina til baka.“