Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og starfandi utanríkisráðherra síðustu vikur, sagði á fundi Samfylkingarinnar rétt í þessu að Samfylkingin hefði lagt þunga áherslu á að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann sagði enn fremur að Ísland yrði ekki selt á brunaútsölu. "Við erum í bölvuðum vandræðum en við sjáum fram úr þeim," sagði hann.

Össur sagði að allt kapp hefði verið lagt á, síðustu daga, að fá faglega ráðgjöf hæfustu sérfræðinga í heimi. Áhersla hefði verið lögð á að verja eignirnar. Það skipti miklu að verja þær. Markmiðið væri m.a. að láta ekki einhverja hrægamma, sagði hann, taka eignir okkar á einhvers konar brunaútsölu. "Ísland verður ekki á brunaútsölu," sagði hann.

Þá sagði Össur og beindi orðum sínum sérstaklega til umhverfisráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að enginn afsláttur yrði gefinn af umhverfisreglum í þeim hremmingum sem nú stæðu yfir.