Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði í dag fram fyrirspurn á Alþingi til dómsmálaráðherra um verktakakostnað embættis sérstaks saksóknara.

Sigurður Guðni Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi Sigurjóns Árnasonar, gerði verktakakostnað sérstaks saksóknara að umtalsefni í stöðuuppfærslu á Fasbók í gær . Þar benti hann á að vinna tveggja Dana við álitsgerðir fyrir embættið hefðu kostað það 2.500 danskar krónur á klukkustund.  Sagði hann jafnframt að fróðlegt væri að fá upplýsingar um það fá embættinu hvað íslensku verktakar embættisins hafi á tímann.

Sigurður þarf líklega ekki að bíða lengi eftir svörum, því Össur hefur tekið málið upp og vill vita meira. Spyr hann dómsmálaráðherra að því hver kostnaður embættis sérstaks saksóknara hafi verið vegna aðkeyptrar ráðgjafar og þjónustu verktaka til 1. október 2014. Vill hann einnig vita til hvaða verkefna þjónustan var keypt, af hverjum og hve háar greiðslurnar hafi verið til hvers og eins.