Það getur tekið fjóra til fimm mánuði að koma í ljós hvað EFTA dómurinn um Icesave sem fellur í dag þýðir að sögn Össurs Skarphéðinssonar utanríkisráðherra, en rætt var við hann í morgunfréttum Ríkisútvarpsins.

„Það getur tekið langan tíma að skoða, hann verður brotinn til mergjar. Það getur tekið þess vegna fjóra til fimm mánuði og við munum taka allan þann tíma sem við þurfum til þess. En það sem skiptir hins vegar máli í þessu er að horfa á þá staðreynd að það stóðst allt sem Íslendingar sögðu um styrk og getu þrotabúsins til þess að greiða og á þessari stundi þá er búið að borga 660 milljarða, þar af 585 gagnvart innstæðutryggingunum sem þýðir að rösklega 90 prósent af lágmarkstryggingunni er búið að greiða.“

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, höfðaði mál gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum í desember árið 2011 vegna Icesave reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Dóms er að vænta um klukkan hálf ellefu í dag að íslenskum tíma.