Gengi hlutabréfa stoðtækjafyrirtækisins Össurar hækkaði um 3,57% í Kauphöllinni í dag og endaði gengi bréfa félagsins í 203 krónum á hlut. Þetta er annar dagurinn í röð sem hlutabréf Össurar hækka mest í Kauphöllinni.

Á hæla Össurar fylgdi Marel en gengi bréfa félagsins hækkaði um 3,16% í dag. á hækkaði gengi bréfa Icelandair Group um 2,61%. Bréf bæði Marel og flugrekstrarfélagsins eru í hæstu hæðum en bréf Icelandair Group hafa ekki staðið í þessu gildi síðan í apríl árið 2009 þegar þau voru á hraðri niðurleið.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,61% í dag og endaði í rúmum 1.022 stigum. Vísitalan fór í 1.025 stig í dag og hafði þá aldrei verið hærri. Vísitalan tók gildi 2. janúar árið 2009.