„Ég meina, ég stóð allsber í búningsklefanum í World Class, var að fara í gufubað á sunnudegi og var að halda mér sérstaklega til því að ég var í fyrsta skipti á ævinni að fara til klæðskera. Og leit á símann minn í fötunum áður en ég fór í gufuna og þá sá ég bara að þar voru ógeðslega mörg símtöl og sms frá Einari Karli sem var staddur í Glasgow og sagði að það væru allir að leita að mér, það væri einhver krísa og ég yrði að hringja í Ingibjörgu Sólrúnu þannig að ég klæddi mig og hringi í hana," er haft eftir Össur Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta var sunnudaginn áður en fundur var haldinn í Seðlabanka Íslands þar sem tilkynnt var um yfirtöku bankans á Glitni.

Átti ekki að hringja í Björgvin G. Sigurðsson

„Þá sagði hún [Ingibjörg Sólrún] mér það að ég ætti að fara niður í Glitni og það væri krísa þar og hún sagði mér hvað væri um að ræða, Glitnir væri að fara niður. Hún sagði mér af tillögunni sem lægi fyrir, ég man ekki betur, 75 prósentunum, og ég sagði við hana: Bíddu, á ég að fara þarna? Ég meina, [ég hef] hvorki áhuga né vit á þessu, og hún sagði: Það þarf einhvern sem þarf að stýra þessu af okkar hálfu sem hefur reynslu. Og ég sagði við hana: En á ég þá ekki að taka viðskiptaráðherra með mér? Hún sagði: Nei. Jón Þór verður þarna með þér. Ég sagði: En á ég ekki að hringja í viðskiptaráðherrann? Og hún sagði: Ekki strax, þannig að ekki tala við neinn, „keep it under wraps“. Og ég fór þarna eða ég hringdi í Jón Þór og hringdi í klæðskerann, hef ekki séð [hann] síðan, og fór þarna niður eftir. Og hún sagði: Þarna munu þeir, þeir munu bíða þarna eftir þér, Geir Haarde og Árni Matt. Og ég kom þarna svona um hálfsjö.“