Facebook-síðu Össurar Skarphéðinssonar var lokið fyrirvaralaust í gær en Össur hefur farið mikinn á Facebook síðustu ár og færslur hans vekja iðulega athygli.

Facebook-siða hans hefur nú verið opnuð en Össur fékk engar skýringar á því af hverju henni hefði verið lokað. Í nýrri færslu veltir hann fyrir sér að bandarískt fyrirtæki geti lokað á helsta tjáningarform stjórnmálamanna í nútímanum. Össur segir meðal annars:

„Er það ekki einnar messu virði að velta fyrir sér að bandarískt stórfyrirtæki getur skrúfað fyrir helsta tjáningarform stjórnmálamanna í nútímanum? Á það að vera svoleiðis? Ættu löndin kannski að setja í lög að fyrirtæki sem starfrækja samskiptamiðla mættu undir engum kringumstæðum loka á tjáningu fólks sem berst fyrir mannréttindum eða er í stjórnarandstöðu án þess að fyrir því séu færð rök? Þessvegna um alla. – Hvað ef Facebook og aðrir samskiptamiðlar sem nú eru helstu vettvangar pólitískrar tjáningar og andófs lenda í höndum sem hafa minni virðingu fyrir lýðræði og tjáningarfrelsi en núverandi eigendur?“