Málstaður Íslands í Icesave-málinu var góður frá upphafi og batnaði eftir því sem á leið, að sögn Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra. Sagði hann að líkja mætti málsvörn Tim Ward, aðallögmanns Íslands, við meistaraverk. Ísland vann fullnaðarsigur í báðum þeim atriðum sem EFTA-dómstólinn hafði til umfjöllunar.

Össur sagði málið stórsigur fyrir Ísland og að það verði skólabókardæmi í evrópurétti til langs tíma.

„Við erum hólpin,“ sagði Össur, sem einnig þakkaði grasrótarsamtökum sem barist höfðu gegn Icesave-samningunum og sagði að mikill hagur hefði verið í því að fá sjónarmið þeirra inn í málið.

Tim Ward sagði að erfitt hefði verið að sjá niðurstöðuna fyrir, en að hann væri hæstánægður með hana. Hann tók einnig fram að niðurstaðan væri endanleg og að henni yrði ekki áfrýjað.

Össur var svo spurður hvort hann myndi heyra í kollegum sínum í Hollandi eða Bretlandi. Hann sagðist vona að þeir sendu sér heillaóskaskeyti, en í raun ætti hann ekki von á slíkri sendingu.