Allnokkur orðaskipti urðu á milli Össurar Skarphéðinssonar iðnaðarráðherra og stjórnenda Borgarafundar Sjónvarpsins í kvöld um afstöðu til frekari álversuppbyggingar hér á landi, sérstaklega á Bakka við Húsavík.

Stjórnendur þáttarins, þau Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Sigmar Guðmundsson, töldu svör Össurar heldur óskýr en hann hafnaði því og sagði þau ekki leyfa sér að svara.

Orðaskiptin fara hér á eftir í heild sinni og hefjast á fyrsta svari Össurar. (Inn á milli voru orðahnippingar, læti og frammíköll úr sal sem ekki verða rakin hér):

Össur: Að því er varðar síðan álverið á Bakka þá er það þannig að ég er þeirrar skoðunar að það sé nóg komið af áli í þessu landi. Ég er hræddur við það að setja öll eggin í eina körfu. Menn vita mitt record, ég hef verið laminn eins og harðfiskur fyrir það að ég stóð að því að fjárfestingarsamningur var gerður sem tengdist Helguvík út af atvinnuástandinu. Ég horfði fram á það að þar væri verið að skapa mjög mörg störf sem að akkúrat komu til þegar atvinnuleysið var mest og þegar efnahagslægðin verður dýpst

Sigmar: En þú vilt sem sagt ekki álver á Bakka?

Össur: Nei...

Jóhanna Vigdís: En má ekki skilja orð þín þannig að þú sért að hafna álveri á Bakka?

Össur: Nei, ég er ekki að hafna álveri á Bakka.

Sigmar: Össur, þú verður að tala svolítið skýrt. Það eru þrír dagar til kosninga og við verðum að vita hvað þú ætlar að gera.

Össur: Staðreyndin er sú að í tíð fyrri ríkisstjórnar þá tók hún afstöðu til þess að hún framlengdi ákveðna viljayfirlýsingu sem að gaf Alcoa færi á því að taka sína ákvörðun síðar á þessu ári. Ég var aðili að því og ég hleyp ekki frá því.

Jóhanna Vigdís: En Össur Skarphéðinsson, álver á Bakka?

Össur: Það er álver á Bakka. En reyndar var það þannig...

Sigmar: Eigum við þá að merkja það þannig í kladdann að þú vilt fá álver á Bakka eftir kosningar? Já?

Össur: Nei.

Sigmar: Ekki? Þannig að það er ekki? Össur þú verður að fyrirgefa okkur en það er bara svolítið erfitt að ráða í það hvað þú ert að segja.

Össur: Nei nei, þið bara leyfið mér ekki að svara.

Jóhanna Vigdís: Jú jú, gjörðu svo vel, já eða nei?

Össur: Ég er þeirrar skoðunar að það sé komið nóg af álverum á Íslandi og ég vil nota orkuna til annarra hluta. Ég er þeirrar skoðunar. Ég held að álver á Bakka það muni ekki koma vegna þess meðal annars að Alcoa hefur gefið út yfirlýsingar um það að það er ekki að fara í frekari fjárfestingar. Það er móðurfélagið. Ég veit að menn hér heima á Húsavík hafa mikinn áhuga á þessu en því miður þegar ég var að semja við þá, þá stóð slagur um það að þeir vildu fresta þessu um þrjú ár.