Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra lýsti því yfir í umræðum um evrumálin í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að hann væri sammála skoðun dómsmálaráðherra um að fara þurfi í umræður um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu.

Einnig sagði Össur mikilvægt að fara í umræður um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni. Taldi Össur að hægt væri að ljúka slíkri umræðu á nokkrum mánuðum.

Umræðan um evruna hefur verið mikil á undanförnum vikum og í viðtali við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra sem Sigmundur Erni Rúnarsson átti á Stöð tvö þann 20. mars kom m.a. fram að Björn taldi ljóst að Evrópusambandið tæki Íslendingum opnum örmum. Því þyrfti ekki að leita svara við því.

Hann sagðist hins vegar enn á þeirri skoðun að hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu væri vel gætt með núverandi fyrirkomulagi. Spurningin væri hins vegar um vilja þjóðarinnar og að móta vegvísi ef vilji væri til viðræðna. Hvort fara ætti í þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja viðræður við Evrópusambandið og hvernig ætti að haga þeirri atkvæðagreiðslu og breytingum á stjórnarskránni. Í því tilliti ættum við eftir að vinna heimavinnuna.

„Þú ferð ekkert í svona viðræður að leita að einhverju, annað hvort tekurðu ákvörðun um, að þú ætlir að ná því markmiði að komast inn í Evrópusambandið eða ekki,” sagði Björn m.a. í umræddu viðtali.