Hagar óskuðu eftir því fyrr á árinu að settur yrði opinn og gjaldfrjáls tollkvóti fyrir innflutning á lífrænum kjúklingi og ostum úr sauða-, geita- og bufflamjólk, en vörurnar eru ekki framleiddar hér á landi. Var Högum synjað um beiðnina og kærði niðurstöðuna til dómstóla.

Greint er frá því á fréttavef RÚV að dómari hefði ákveðið að vísa málinu frá dómi á þeim grundvelli að Hagar ættu ekki beina og sérstaka hagsmuni af málsókninni. Vísaði dómarinn til þess að tollkvótar væru settir með reglugerðum og því væri ekki um synjun á einstaklingsbundnum réttindum að ræða.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Haga, segir í samtali við RÚV að niðurstaðan standist ekki skoðun. Málið varði heilbrigða verslunarhætti, samkeppni og réttindi neytenda. Gríðarlegir hagsmunir séu í húfi og í ljósi þess muni Hagar áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar.