Tyrkneski seðlabankinn tilkynnti á miðvikudag að bankinn myndi ekki ná að standa við verbólgumarkmið sitt þetta árið. Þá tilkynnti hann að frekari vaxtahækkanir væru líklegar ef fjárfestar héldu áfram að draga sig út úr tyrkneskum verðbréfamörkuðum.

Þetta eru slæm tíðindi fyrir forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, en kosningar verða í landinu eftir átján mánuði og voru miklar væntingar bundnar við að hann gæti rétt af fjárhag landins.

Bankinn hækkaði vexti um 175 punkta í síðustu viku til að stemma stigu við mikilli sölu á tyrknesku lírunni. Tyrkneskir hlutabréfamarkaðir hafa fallið um 25% á síðustu sex vikum, en sala hefur ekki verið meiri í fimm ár, þar sem fjárfestar selja nú í stórauknu mæli til að minnka áhættu.

Verðbólgan fór upp í 9,9% í maí og stefnir í að hún muni hækka á næstunni, en verðbólgan fór niður fyrir tíu prósent í fyrsta skipti í áratug árið 2004. Bankinn sagði að líklegt væri að það gæti komið til frekari vaxtahækkana til að halda verðbólgunni í skefjum og til að styrkja líruna.

Matfyrirtækið Fitch Ratings segir að óstöðugleiki á fjármálamarkaði Tyrklands hafi ekki enn haft áhrif á lánshæfismat ríkisins, en ef ástandið batnar ekki gæti breyting orðið þar á, segir í skýrslu Fitch sem birt var á miðvikudag.