Prófessor Xavier Sala-i-Martin er prófessor í þjóðhagfræði við Columbia háskóla í New York fjallaði um stöðu Íslands í samanburði við önnur lönd út frá aðferðarfræði stofnunarinnar World Economic Forum (WEF).

WEF gefur árlega út skýrslu um samkeppnishæfni þjóða og var Ísland í 23.sæti af yfir 100 löndum nú síðast á eftir löndum eins og Bandaríkjunum, Danmörku og Kanada.

Sala-i-Martin telur framleiðni vera lykilatriði fyrir aukna samkeppnishæfni og að það skipti öllu fyrir hagkerfi eins og Ísland að koma sífellt með nýjungar á öllum sviðum atvinnulífsins.

Þrátt fyrir mjög sterka stöðu Íslands á mörgum sviðum var niðurstaða síðustu skýrslu að efnahagslegur óstöðugleiki sé landinu okkar einkum til trafala, þ.á.m. háir vextir og mikill viðskiptahalli.

Einnig kom fram að hagkvæmni á vinnumarkaði hér sé mikil en hana skorti þó nokkuð á íslenskum vörumarkaði.

Hagfræðideild Háskóla Íslands efndi til fundarins í morgun þar sem Sala-i-Martin fjallaði um samkeppnishæfni þjóða, hvernig hún er mæld og hvernig þjóðir geta bætt sig í þeim efnum. Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra opnaði fundinn.