Ríkisendurskoðun gagnrýndi í skýrslu árið 2011 að hagsmunasamtök bænda sinni stjórnsýsluverkefnum á sviði landbúnaðarmála. Nú, fjórum árum seinna, er verið að bregðast við ábendingunni í nýju stjórnarfrumvarpi. Breytingin mætir andstöðu þriggja hagsmunasamtaka bænda. Samtök atvinnulífsins, Félag atvinnurekenda og Viðskiptaráð eru hins vegar hlynnt henni og segja meðal annars ótækt að fela hagsmunasamtökum stjórnsýsluverkefni sem fjármögnuð eru af skattfé og eiga að vera unnin af hlutlægni.

Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem kveður meðal annars á um að stjórnsýsluverkefni verði flutt frá Bændasamtökum íslands til Matvælastofnunar mætir andstöðu forystumanna landbúnaðarins.

Markmið frumvarpsins er fyrst og fremst að bregðast við gagnrýni Ríkisendurskoðunar varðandi eftirlit með framkvæmd búvörusamninga. Eins og áður sagði benti Ríkisendurskoðun á ýmsa vankanta í verkaskiptingu á sviði landbúnaðarmála í skýrslu sem kom út árið 2011. Á meðal þess sem var gagnrýnt var að Bændasamtökin, sem eru hagsmunasamtök bænda, sinntu stjórnsýsluverkefnum eins og til dæmis útgreiðslu styrkja til bænda.Greiðslur til landbúnarins vegna búvörusamninga og tveggja sjóða nema samtals 13,2 milljörðum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpi þessa árs.

Fyrir ári síðan birti Ríkisendurskoðun aðra skýrslu, þar sem tekið var fram að stjórnvöld væru ekki enn búin að bregðast við. Það eru þau hins vegar að gera núna því í frumvarpi ráðherra er mælst til þess að verkefnin verði flutt til Matvælastofnunar. Umsagnir við frumvarpið hafa verið að berast undanfarna daga.

„Telja verður óeðlilegt að  Bændasamtökum  Íslands  sé  falið  opinbert vald  sem  felst  m.a.  í ákvörðunum  um  opinberar  greiðslur  til  bænda,  útreikningi,  afgreiðslu  og  eftirliti  með  framkvæmd  þeirra," segir í umsögn Viðskiptaráðs Íslands. „Slík  verkefni verða að vera á  höndum  hlutlauss aðila."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .