Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks hefur lagt fram tillögu um að Reykjavík fái sjálfdæmi varðandi fjölda borgarfulltrúa, en tillögunni var vísað til forsætisnefndar borgarinnar á fundi borgarstjórnar í gær.

Kjartan Magnússon sagði á borgarstjórnarfundi í gær að „mér þætti það slæm skilaboð við þessar aðstæður ef að kjörnum fulltrúum væri fjölgað um 53 prósent.“ Aðstæðurnar sem Kjartan vísar til er slæm fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar. Fyrir stuttu gerði Viðskiptablaðið úttekt á fjármálum Reykjavíkurborgar þar sem kom fram að rekstur grunnþjónustu í Reykjavík hefur aldrei verið eins dýr, greiðslugeta borgarinnar fer versnandi og að útgjöld hafa aukist mikið.

Samkvæmt sveitastjórnarlögum á Reykjavíkurborg að vera með 23 til 31 borgarfulltrúa eftir næstu sveitastjórnarkosningar, sem verða haldnar árið 2018.

Kjartan sagði í gær að borgarstjórn ætti að taka afstöðu til þess hvort að þörf væri á fjölgum borgarfulltrúa eða ekki. Kjartan skoraði síðan á Alþingi að endurskoða sveitastjórnarlögin með þeim hætti að borgarstjórn fái sjálf að ákveða fjölda borgarfulltrúa.