Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA í viðtali við Spegilinn á RÚV. Þorsteinn gerði komandi kjarasamninga að umtalsefni sínu í þættinum.

Mikilvægt væri að átta sig á því að hagsmunir atvinnurekenda og verkalýðshreyfinga lægju saman. Ótækt væri að fórna þeim mikla árangri sem hefði náðst með fljótfærni. „Við virðumst alltaf halda að við getum rifið launastigið upp mjög hratt, um háar prósentutölur á hverju ári án þess að það hafi neinar afleiðingar á verðlag," segir Þorsteinn. Vitnisburður sögunnar beri því glöggt vitni að svo sé ekki.

Langhlaup, ekki stuttir sprettir

Þorsteinn segir að hóflegir og skynsamlegir kjarasamningar hafi orðið til þess að hægt hafi verið að ná góðum árangri í efnahagsmálum, á sama tíma og launamenn hafi notið ágóða af því með tæplega 5% hækkun kaupmáttar á einu ári. „Hagkerfið er í góðu jafnvægi um þessar mundir. Við erum með viðskiptaafgang, lága verðbólgu og minnkandi atvinnuleysi," segir Þorsteinn.

Hann segir að það ætti að vera orðið ljóst þegar hér er komið við sögu að lífsgæðaaukning landsmanna væri langhlaup en gerðist ekki í einni andrá. Snarpar launahækkanir væru í raun andstæðar hagsmunum launþega, ekki síður en launagreiðenda. Því þurfi að ganga til verks „þannig að það raski ekki verðlagsstöðugleika, skapi ekki óstöðugt efnahagsumhverfi og að vaxtastigið sé ekki hærra en það þarf nauðsynlega að vera. Það er þannig sem hagsmunir okkar liggja saman til lengri tíma litið," segir Þorsteinn Víglundsson