Tölfræði um gistirými er alls ekki nógu góð og það þarf að gera stórátak í því. Við þurfum að vita hversu margar gistinætur er raunverulega verið að selja í landinu,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF).

Á höfuðborgarsvæðinu eru nú þegar fyrir hendi um 2.700 herbergi í þriggja og fjögurra stjörnu hótelum samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar. Skiptist það nokkuð jafnt á milli þriggja og fjögurra stjörnu gæðaflokkanna. Erna Hauksdóttir segir að sú tala hafi ekkert breyst síðustu þrjú ár þrátt fyrir áform um byggingu á allt að 1.100 herbergjum í nýjum hótelum. Hins vegar sé mjög á reiki hvert framboð gistirýmis er á öðrum gististöðum en hótelum.

Verið að kanna umfangið

Erna segir að þessar vikurnar sé einmitt verið að reyna að kostleggja umfang allrar gistingar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri.

„Við erum komin með menn tímabundið í vinnu til þess, þar sem við finnum ekki svo glatt umfangið í skrám lögreglustjóra yfir þá sem hafa starfsleyfi. Það er mjög mikilvægt að það sé alveg á hreinu hvert framboðið er og að allir séu með starfsleyfi og fari að lögum og reglum. Einnig að þeir sendi lögboðnar upplýsingar um gistinætur til Hagstofunnar því það er öllum ljóst að þær tölur er kolvitlausar. Fyrirtæki eiga ekkert að komast upp með að senda ekki inn lögboðnar upplýsingar því þá erum við bara með vitlausa tölfræði um þessa grein. Víða erlendis eru viðurlög við að skila ekki inn svona upplýsingum. Við viljum að þessi mál séu tekin föstum tökum hér á landi líka.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.