Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við embætti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í ársbyrjun og varð um leið næstyngsti ráðherra Íslandssögunnar. Þórdís segir að í ljósi þess að grundvallaratvinnuvegir Íslendinga byggi á takmörkuðum auðlindum sé frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun ein af meginforsendum áframhaldandi hagvaxtar til lengri tíma. Hún telur æskilegt að Ísland stefni á að verða framúrskarandi í nýsköpun á færri og afmarkaðri sviðum, t.a.m. í ferðaþjónustu, sjávarútvegi og orku.

Þú ert ráðherra ferðamála, og þar hefur verið mikil gróska. Með fjölgun ferðamanna hafa sprottið upp alls konar fyrirtæki, hefur þú tekið eftir aukinni hugmyndaauðgi í íslenskri ferðaþjónustu samhliða fjölgun ferðamanna?

„Frumkvöðlar í ferðaþjónustunni eru víða og einstaklingar út um allt land að gera merkilega hluti. Það er margt spennandi við þennan breytta veruleika sem við búum við í tengslum við fjölgun ferðamanna. Þar má nefna ótrúlegt framboð af afþreyingu, menningu, veitingahúsum og fleiru. Það er frábært hvað þetta hefur gert mikið fyrir byggðir landsins og ég hef sagt að þetta sé sjálfsprottin byggðaaðgerð. Landsbyggðin á ennþá mikið inni í ferðaþjónustu og ferðamennsku og eitt af hlutverkum stjórnvalda er að stuðla að því að dreifa ferðamönnum betur um landið. Ferðaþjónustan hefur staðið sig ótrúlega vel í að mæta þeirri eftirspurn sem hefur orðið víða, og í samhengi við frumkvöðla finnst mér við þurfa að tala um þetta.

Í ferðaþjónustunni eru óteljandi frumkvöðlar og nýsköpunin sem er að eiga sér stað í ferðaþjónustunni er gífurleg. Ég held það séu margir sem kveikja ekki endilega á því. Stuðningur við nýsköpun nær líka til ferðaþjónustunnar og kannski þarf aðgangur hennar að þeim stuðningi að vera betri. En við erum bara með breytt Ísland, því fylgja áskoranir en því fylgja líka ótrúleg tækifæri.“

Felast almennt miklar áskoranir í þeim miklu tæknibreytingum sem eru að eiga sér stað núna?

„Að mínu mati þurfa stjórnvöld að vera leiðandi í að móta hvernig við tökum á móti þessari tæknibyltingu. Það eru lönd í kringum okkur sem eru farin af stað með miklar ráðstafanir og undirbúning fyrir þær breytingar sem ný tækni hefur í för með sér, vegna þess að hún mun koma hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það getur alveg verið svolítið yfirþyrmandi eða óþægilegt fyrir okkur sem samfélag eða ákveðna hópa samfélagsins eða atvinnugreinar, en þetta er alda sem annaðhvort skellur á okkur eða – ef við tökum rétt á móti henni – tekur okkur lengra og færir okkur fram á veginn. Við eigum að nýta hana sem tækifæri og við eigum margt gífurlega öflugt fólk sem getur ráðlagt okkur hvernig það verður best gert.“

Þú minntist áðan á sérhæfingu, eru einhverjar greinar utan ferðaþjónustu sem þú telur mest spennandi varðandi nýsköpun?

„Sjávarútvegurinn blasir við sem nærtækt dæmi, mér finnst rakið að rótgrónar undirstöðuatvinnugreinar spili stórt hlutverk í nýsköpun. Við erum framúrskarandi í sjávarútvegi og að áframvinna afurðir þaðan og mér finnst að við ættum að nýta sóknarfærin þar og setja okkur metnaðarfull markmið. Mörg fyrirtæki og frumkvöðlar eru að gera þar mjög góða hluti. Ímyndaðu þér að þú sért í fríi í Bandaríkjunum og brennist á handlegg en þá lætur bandaríski læknirinn „hátækni“ plástur á höndina á þér sem er unninn úr íslenskum þorski með íslensku hugviti sem gerir að verkum að húðin grær án þess að það komi ljótt ör. Þetta er ekki ævintýrasaga úr fjarlægri framtíð heldur raunhæft framhald af þeirri nýsköpun sem á sér stað nú þegar hér á Íslandi. Orkugeirinn er annað dæmi, ekki síst varðandi jarðhita.

Í sjávarútveginum höfum við séð hvernig við bregðumst við breyttum veruleika og hvernig tæknibyltingin fleytir okkur áfram. Það vinna miklu færri hendur að sjávarútveginum í dag og hann er skýrt dæmi um hvernig við höfum nýtt tæknina til að verða enn betri og skapa fleiri hálaunuð störf, og hvernig sterk undirstöðugrein skapar forsendur fyrir nýsköpun bæði í greininni sjálfri og í tengdri þjónustu. Svo höfum við líka dæmi um undraverðan árangur á sviðum sem kannski enginn gat spáð fyrir um, svo sem Össur, CCP og fleiri.“

Nánar er rætt við Þórdísi Kolbrúnu í nýja tímaritinu Frumkvöðlum. Áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.