Í verðmati Capacent á Arion banka, sem sagt var frá í gær , segir að síendurtekin stór útlánatöp bankans velti upp mörgum spurningum. Bent er á mikil útlánatöp vegna United Silicon og Primera Air í ár, og spurt hvort þau séu einskær óheppni eða merki um djúpstæðari vanda; hvernig verkferlum og eftirliti sé háttað við útlán, og hver sé þekking starfsmanna á þeirri atvinnugrein sem lánað sé til. Í lokin er spurt hvort „hinn íslenski fyrirtækjakúltúr sé að þvælast fyrir Arion banka þar sem óþægilegar spurningar séu óspurðar?“

Eins og kunnugt er endaði kísilversævintýri United Silicon með gjaldþroti félagsins, sem Arion hafði lánað töluverðar fjárhæðir, og tók því kísilverið í kjölfarið yfir. Innri endurskoðun bankans komst í kjölfarið að því að áhættustýring og innra eftirlit bankans hefði verið ófullnægjandi á árunum 2016-2017, og nefndi United Silicon málið sérstaklega. Primera Air fór svo í gjaldþrot í upphafi októbermánaðar, sem bankinn tilkynnti um að myndi kosta hann hátt í 2 milljarða króna.

Ásættanleg áhætta fyrir skattgreiðendur?
Verðmatið kemur einnig inn á rekstrarumhverfi stóru bankanna þriggja, og líkir þeim í því sambandi við sparisjóðina fyrir hrun, að því leyti til að þeir séu illa samkeppnishæfir við erlenda banka og verðtryggð íbúðalán lífeyrissjóðanna. Á sama tíma leggi hið opinbera á sífellt meira íþyngjandi skatta og fjármálalöggjöf, sem dragi úr rekstrarhæfi innlánsstofnana. Einnig er bent á það að skuldir ríkisbankanna tveggja nemi rúmum 2.000 milljörðum króna, tæpum 80% af landsframleiðslu, og því velt upp hvort sú áhætta sem í því felst fyrir skattgreiðendur sé ásættanleg.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .