Hæstiréttur fylgdi fyrri dómafordæmum í umboðssvikamálum sem upp spruttu í kjölfar efnahagshrunsins. Þetta kemur fram í nýju riti eftir Eirík Tómasson, fyrrverandi dómara við réttinn, sem gefið er út af Lagastofnun Háskóla Íslands. Óþarft er að hans mati að hrófla við ásetningshugtaki refsiréttarins.

Í almennum hegningarlögum er fjallað um umboðssvik í 249. gr. Þar segir að ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar téða afstöðu þá varði það allt að tveggja ára fangelsi. Séu sakir mjög miklar er refsihámarkið sex ár. Umboðssvik flokkast til auðgunarbrota en fyrir slík brot skal aðeins refsa ef þau eru framin í auðgunarskyni.

Líkt og með flest önnur brot hegningarlaganna skal aðeins refsa fyrir umboðssvik hafi ásetningur verið til brotsins. Hugtakið nær yfir öll stig ásetnings en neðsta stig hans heggur ansi nærri efstu stigum gáleysis. Að endingu verða þrjú huglæg skilyrði að vera til staðar. Verknaðurinn verður að fela í sér fjártjón eða röskun á verðmætum, hann verður að hafa fjárgildi og ólögmæt yfirfærsla fjármuna verður að eiga sér stað.

Í ritinu rekur Eiríkur, og vísar til greinar Jónatans Þórmundssonar um efnið, að í íslenskum rétti hafi verið slakað á kröfum um fullan ásetning í nokkrum tegundum auðgunarbrota. Sá slaki nær til hlutrænna efnisþátta auðgunar en ekki ásetnings til efnisþátta verknaðarlýsingarinnar. Með öðrum orðum þá hefur tíðkast að vitund einstaklings um að valda verulegri fjártjónshættu nægi til sakfellingar. Rekur hann síðan dóma, sem féllu á árunum 1996 til 2005, þar sem vitund um verulega fjártjónsáhættu nægði til sakfellingar.

Drepið hefur verið á því að skýra þurfi ásetnings- og auðgunarásetningshugtak hegningarlaganna betur sé ætlunin að miða áfram við vitund gerenda um verulega fjártjónshættu. Eiríkur telur slíka breytingu óþarfa. „Hugtakið ásetningur er [...] skýrt afmarkað í íslenskum lagamáli þar sem hugtakið tekur til allra stiga ásetnings, þ.e. beins ásetnings, líkindaásetnings og dolus eventualis. [...] [Breyting] gæti haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar, þ.á.m. lækkað refsingu verulega fyrir verknaði, sem hingað til hafa talist ásetningsbrot, eða gert þá refsilausa með öllu ef ekki er heimilt að refsa fyrir sams konar háttsemi sem framin er af gáleysi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .