Sigurður Valtýsson, einn eigenda og forsvarsmaður Frigusar II, segir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur um að sýkna íslenska ríkið og Lindarhvol af bótakröfu vegna sölu á hlut ríkisins í Klakka árið 2016 sé honum mikil vonbrigði.

„Þau gögn og vitnisburðir sem komu fram við aðalmeðferð málsins sýndu alvarlegar brotalamir í tengslum við söluna á eignarhlut ríkisins hjá Lindarhvoli. Jafnræði var ekkert, gagnsæið hverfandi og leyndarhyggja ríkjandi, þvert á lög og siðareglur félagsins,“ segir Sigurður við Viðskiptablaðið.

Sigurður segir mikil vonbrigði að dómarar málsins hafi litið fram hjá „þessum stóru ágöllum“. Hann og aðrir tengdir Frigusi II muni fara yfir dóminn og taka ákvörðun í framhaldinu um áfrýjun til Landsréttar.

Mikið hefur verið fjallað um greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda í málefnum Lindarhvols, sem ekki hefur verið birt opinberlega.

„Greinargerð Sigurðar Þórðarsonar er enn læst í skúffu varðhunda kerfisins og kom þannig ekki til skoðunar fyrir dómi. Hvað er verið að fela? Óþolandi og ólíðandi er að gögn sem eiga að vera opinber skulu falin í þessu dómsmáli, ríkinu til hagsbóta,“ segir Sigurður Valtýsson.