*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Erlent 25. janúar 2021 10:27

Ótímabær endurkoma 737 Max?

Fyrrverandi yfirmaður í verksmiðju Boeing telur þörf á frekari rannsóknum áður en 737 Max þoturnar snúa í háloftin á ný.

Ritstjórn
epa

Fyrrverandi yfirmaður hjá verksmiðju bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing í Seattle, Ed Pierson, hefur lýst yfir áhyggjum af því að Boeing 737 Max þoturnar snúi brátt í háloftin á ný. BBC greinir frá.

Pierson telur að rannsaka þurfi frekar rafmagnstengd vandamál í þotunum og gæðin í framleiðsluferli þeirra.

Flugmálayfirvöld í Evrópu og Bandaríkjunum telja að rannsóknir og prófanir á þeirra vegum tengdar þotunum hafi verið nægilegar. Niðurstaðan sé sú að óhætt sé fyrir 737 Max þoturnar að snúa í háloftin á nýjan leik.

Boeing 737 Max flugvélarnar hafa verið kyrrsettar á alþjóðavísu í tæplega tvö ár, í kjölfar tveggja mannskæðra slysa sem áttu sér stað með stuttu millibili.

Pierson telur að rannsakendur og flugmálayfirvöld hafi hundsað þætti sem hann telur að geti hafa leikið stórt hlutverk í slysunum tveimur. Telur Pierson að ófullnægjandi aðstæður í verksmiðju Boeing í Renton, á þeim tíma sem vélarnar voru framleiddar, sé helsti orsakavaldur galla í búnaði 737 Max flugvélanna.

Boeing hefur vísað þessum ásökunum Piersons á bug.