Viðskiptaráð Íslands fagnar fyrirætlunum um stofnun þjóðarsjóðs en segja ótímabært að ráðstafa úr honum áður en hann er stofnaður.

Með því er átt við væntanlegar fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eins og þær koma fram í stjórnarsáttmálanum en þar segir að afmarkaður hluti ráðstöfunarfjár sjóðsins verði notaður til þess að efla nýsköpun og vöxt og þroska sprotafyrirtækja. Einnig segir að hluti hans verði nýttur til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina.

Í umfjöllun Viðskiptaráðs er tekið dæmi af norska olíusjóðnum sem er jafnframt sagður helsta fyrirmynd Íslendinga og að þjóðarsjóður hérlendis hafi með einum eða öðrum hætti verið í umræðunni frá 1990 en ekki hafi þó enn komið til stofnun hans. Á meðan hafi Norðmenn byggt upp sjóð sem samsvari 250% af landsframleiðslu. „Þjóðarsjóður Noregs var stofnaður upp úr 1990 og sex árum síðar hófst innflæði í sjóðinn. Við Íslendingar höfum talað um slíkan sjóð síðan þá, en ekkert aðhafst.“

Ennfremur er farið yfir þær reglur og stefnu sem gildir fyrir norska sjóðinn og að ekki megi ganga á höfuðstól sjóðsins heldur aðeins nota ávöxtun hans.

„Nýsköpunarverkefnin og hjúkrunarrýmin verða sem sagt ekki fjármögnuð á næstkomandi árum af slíkum sjóði ef við förum að fyrirmynd Norðmanna. Ef sáttmálinn snýr í raun að fjármögnun slíkra verkefna eftir fimmtán til tuttugu ár (sem án efa mun ennþá þurfa að fjármagna þá) er þetta til marks um nýja framsýni í íslenskum stjórnmálum og því fagnar Viðskiptaráð.

Hvort heldur sem er, mega slíkar hugmyndir ekki verða til þess að aðkallandi verkefni í tengslum við nýsköpun og losun flöskuhálsa í heilbrigðiskerfinu fái ekki rými annars staðar í fjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar til skemmri tíma. Þjóðarsjóður kemur ekki í stað forgangsröðunar í opinberum fjármálum í dag,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs.