Lítil samstaða er um vindorkunýtingu meðal þjóðarinnar og því ekki tímabært að leggja fram tillögur né taka ákvarðanir um nýtingu hennar. Þetta kom fram í kynningu starfshóps umhverfis- og auðlindaráðuneytis á stöðuskýrslu um nýtingu vindorku á Íslandi sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Starfshópinn skipa Hilmar Gunnlaugsson formaður, Björt Ólafsdóttir, fyrrum umhverfisráðherra og Kolbeinn Óttarson Proppe, fyrrum alþingismaður.

Í kynningu starfshópsins kom fram að breið pólitísk sátt væri um markmið og aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Þar af leiðandi væri orðið brýnt að setja reglur um nýtingu vindorku.

Of mörg álitamál og þörf á þjóðarsamtali

Þrátt fyrir þetta væri ómögulegt á þessu stigi að taka ákvarðanir um vindorkunýtingu vegna þess hve lítil opinber umræða hafi átt sér stað um málið. Fjöldi álitamála væru enn óleyst, til dæmis varðandi samspil orkunýtingar og ferðaþjónustu, gjaldtöku, hvort vindorka ætti að falla undir rammaáætlun, staðsetningu, stærð vindorkugarða, náttúruvernd o.fl. Afgerandi tillögur um málið á þessu stigi væru því ekki til þess fallnar að skapa sátt um málið.

„Við þurfum að stofna til þjóðarsamtals um það hvernig við ætlum að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Stjórnvöld gagnrýnd fyrir stefnuleysi

Niðurstöðu starfshópsins hefur verið beðið með eftirvæntingu þar sem mikið hefur verið fjallað um stöðu orkuframleiðslu, orkuskort og framtíðaráform stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum undanfarið. Hagsmunaaðilar, orkufyrirtæki og aðrir hafa gagnrýnt stjórvöld fyrir stefnuleysi í málaflokknum og kallað eftir ákvörðunum. Þá eru uppi metnaðarfull áform um uppbyggingu vindorkugarða sem bíða þess að stjórnvöld marki sér skýra stefnu í málaflokknum.

Tryggvi Þór Herbertsson, framkvæmdastjóri vetnisþróunar hjá Qair Group, hélt því fram á Iðnþingi í síðasta mánuði að stjórnvöld væru að draga lappirnar og „alvarleg orkukrísa „a la Evrópa 2022“ myndi að óbreyttu raungerast innan þriggja til fjögurra ára hérlendis.

Ólíklegt að markmið náist í loftslagsmálum

Umhverfisstofnun skilaði árlegri landsskýrslu um losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2021 fyrr í dag. Í henni kemur fram að miðað við framreiknaða losun til ársins 2050 er útlit fyrir að Ísland nái aðeins um helmingssamdrætti með núverandi aðgerðum, miðað við fyrirliggjandi markmið.

Í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, kom fram að stöðuskýrsla starfshópsins væri „upplýsandi og góð,“ þótt mikið verk væri enn óunnið.