„Hvort tveggja eru þetta mál sem við munum skoða við fjárlagagerðina og það er ekki orðið tímabært að úttala sig um hvernig við munum haga skattlagningu á fjármálakerfið á næsta fjárlagaári,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við Viðskiptablaðið spurður um mögulegar breytingar á fjársýsluskatti og þær hugmyndir sem Eygló Harðardóttir hefur nefnt um skattlagningu skulda fyrirtækja og þrotabúa. Bjarni segir að ríkisstjórnin muni leggja áherslu á samráð við atvinnulífið og launþegahreyfingarnar þegar kemur að öllum meiriháttar breytingum á skattkerfinu sem snerta heimilin og atvinnulífið.

„En varðandi þessa tvo skatta sérstaklega - bankaskatturinn er hluti af sértækum aðgerðum fyrri ríkisstjórnar til að styrkja tekjuöflunina og við þurfum bara að meta það í fjárlagagerðinni hvernig við munum haga framhaldi af þessari skattlagningu, hvort við erum í færum til að fella hana niður og hvaða áhrif það myndi hafa á heildarskattaumhverfi fjármálafyrirtækjanna í landinu," segir Bjarni. Hann segir að skoða þurfi allar hugmyndir um skattlagningu skulda fjármálafyrirtækja og þrotabúa af yfirvegun.

„Það sem við þurfum fyrst og fremst að gera að finna leiðir til að afnema höftin. Og hugmyndir um miklar breytingar á skattaumhverfinu í millitíðinni - það þarf að stíga varlega til jarðar með slíkar hugmyndir,“ segir Bjarni enn fremur.

Nánar er rætt við Bjarna í Viðskiptablaðinu, m.a. um hugmyndir um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.