Verkalýðsfélagið Hlíf hefur samþykkt vinnustöðvun hjá Rio Tinto á Íslandi frá og með 24. febrúar. Vinnustöðvunin felur í sér að engu áli verður skipað um borð í skip í Straumsvíkurhöfn.

Í yfirlýsingu frá Hlíf segir að samninganefnd verkalýðsfélaganna ákvað þann 9. febrúar 2016 að leita heimildar til undirbúnings og boðunar vinnustöðvunar hjá Rio Tinto Alcan. Vinnustöðvunin verður ótímabundin en takmörkuð til þeirra sem tilheyra flutningasveit fyrirtækisins og starfa á hafnar og vinnusvæði fyrirtækisins við útskipun á áli.  Felur vinnustöðvunin í sér að engu áli verði skipað um borð í skip í Straumsvíkurhöfn, þ.e. ótímabundið útskipunarbann á áli frá 24. febrúar 2016.  Vinnustöðvunin var samþykkt af hlutaðeigandi félagsmönnum Vlf. Hlífar.