„Þetta eru ótrúlega mikil vonbrigði. Þetta er bara hreinlega þannig að við höfum fylgst með þessu í gegnum fjölmiðla síðan á föstudag,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ og nefndarmaður í samninganefnd Íslands um makríl, í samtali við VB.is. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði einnig við VB.is í kvöld að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum.

Kolbeinn bendir á að samningaviðræðum í makríldeilunni sem Evrópusambandið, Norðmenn, Færeyingar og Íslendingar hafi tekið þátt í fyrir síðustu helgi hafi verið slitið á fimmtudaginn. Síðan þá hafi samninganefnd Íslands verið haldið utan við atburðarrásina. Í kvöld staðfesti Evrópusambandið að samningar um skiptingu makrílkvótans hafi náðst án þess að Íslendingar ættu aðild að því samkomulagi.

Kolbeinn segir að frá því á fimmtudaginn hafi Íslendingar ekki vitað neitt. „Svo er þetta farið að verða ennþá meiri draugagangur og á endanum lesum við bara um þetta í fréttatilkynningu frá Evrópusambandinu,“ segir hann.

Hann segir að Íslendingar viti ekkert hver samningurinn er, eða hvað er skilið eftir handa Íslendingum. Íslendingar höfðu náð samningum við Evrópusambandið en ekki tókst að ljúka þeim vegna andstöðu Norðmanna. „Ef að þetta er á allt öðrum nótum en við vorum búin að semja um við Evrópusambandið þá er þetta náttúrlega bara ótrúleg framkoma af hálfu Evrópusambandisins,“ segir Kolbeinn.

Hann segir líka að ef samningarnir sem samþykktir voru í dag feli í sér að fara eigi að ráðgjöf sérfræðinga þá sé það algjör kúvending hjá Norðmönnum. Þeir hafi krafist heildarafla langtumfram ráðgjöf. „Ég skil bara ekki hvað hefur gerst,“ segir Kolbeinn.