„Þetta eru hreint ótrúlegar tölur,“ skrifar Greining Íslandsbanka um fjölda fjölda erlendra ferðamanna hér á landi í nóvember. Brottfarir þeirra um Flugstöð Leifs Eiríkssonar voru um 46.500 talsins í mánuðinum sem er næstum 10 þúsund fleiri en á sama tíma í fyrra. Þetta jafngildir 25,7% aukningu á milli ára og hafa aldrei jafn margir ferðamenn verið á landinu á sama tíma frá því mælingar hófust. Það sem af er ári hafa rúmlega 739.300 erlendir ferðamenn farið frá landinu um flugstöðina. Það jafngildir 19,5% aukningu frá sama tíma í fyrra. Brottfarir erlendra ferðamanna eru nú orðnar 14,3% fleiri á fyrstu 11 mánuðum ársins en þær voru á öllu síðasta ári. Í fyrra voru þær 646.900 talsins.

Deildin bendir á að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað mikið í nóvember í fyrra eða um 61% á milli ára. Þetta þýði að erlendir ferðamenn voru meira en tvöfalt fleiri í nóvember í ár en í nóvember árið 2011.

Iceland Airwaves ekki eina skýringin

Aukningin í fyrra skýrðist að hluta til af því að Iceland Airwaves fór fram í nóvember það ár en í október árið 2011, en þó var ljóst að þrátt fyrir að fjöldatölur um erlenda gesti Airwaves væru teknar út fyrir sviga var samt um mikla aukningu að ræða.

Greining Íslandsbanka segir:

„Vart þarf að taka fram að ofangreindar tölur skipta orðið miklu máli, enda eru umsvif ferðaþjónustunnar í hagkerfinu orðin mun meiri en þau voru áður. Er hér nærtækast að benda á tölur Hagstofu Íslands frá því á föstudag sem sýndu að hagvöxtur á fyrstu níu mánuðum ársins var að miklu leyti drifinn áfram af auknum tekjum í ferðaþjónustu. Einnig má nefna að það sem af er ári nemur þjónustuútflutningur 39% af heildarútflutningi vöru og þjónustu, en árið 2011 var þetta hlutfall 35%“.