Vöxtur Controlant hefur verið ævintýralegur undanfarin ár. Starfsmönnum hefur fjölgað úr 50 í 350 á tveimur árum og tekjurnar tuttugufaldast milli áranna 2019 og 2021 úr 400 milljónum í 8 milljarða króna. Samningur við Pfizer, stærsta lyfjaframleiðanda heims, og bandaríska ríkið, um eftirlit með dreifingu bóluefna við Covid hafa þar skipt hvað mestu.

Fyrirtækið hefur haft eftirlit með um fjórða hverjum Covid bóluefnaskammti sem dreift hefur verið í heiminum. Controlant skilar hagnað í fyrsta sinn á þessu ári og vonast til að innan fárra ára verði það orðið eitt stærsta fyrirtæki landsins en það er þegar orðið eitt það verðmætasta miðað við nýleg hlutabréfaviðskipti með bréf félagsins.

Markmiðið er að tvöfalda tekjurnar á næsta ári og þær 8-10 faldist á næstu fimm árum. Controlant hefur samið við fimm af sex stærstu lyfjaframleiðendum heims um að innleiða véla- og hugbúnaðarlausnir Controlant sem tryggja rauntíma eftirlit með flutningum á verðmætum vörum.

Þá vill fyrirtækið umbylta dreifingu matvæla í heiminum með það að markmiði að draga úr matarsóun um tugi prósenta. „Það eru ákveðin vatnaskil að eiga sér stað í okkar iðnaði og við erum í ákveðinni lúxusstöðu að vera þar í forgrunni,“ segir Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant.

Boltinn fór að rúlla eftir ellefu ár

Fyrirtækið var stofnað árið 2007 en  stjórnendur félagsins sagt að það hafi tekið áratug að finna stefnu félagsins. Það urðu vatnaskil árið 2018 þegar fyrsta stóra lyfjafyrirtækið, Allergan , tók upp lausn Controlant í allri sinni virðiskeðju.

„Þá var Controlant orðið ellefu ára og við sáum að þetta var allt að smella og að öll vinnan sem við höfðum lagt á okkur væri að skila sér.“

Eftir það fór boltinn að rúlla og árið 2019 var Controlant búið að semja við fimm af sex stærstu lyfjafyrirtækjum heims, þar á meðal Pfizer , stærsta lyfjafyrirtæki heims. Gísli segir að innleiðingin með lyfjafyrirtækjunum hafi verið komin á góðan skrið sumarið 2020 þegar Pfizer boðaði stjórnendur Controlant á fund með skömmum fyrirvara. Tilefnið var að taka þátt í dreifingu á þá ósamþykktu Covid bóluefni.

„Ég man vel eftir þessum fundi. Pfizer vildi fá fulla vissu um að við myndum leggja allt í sölurnar ef við fengjum verkefnið. Við ákváðum að skrúfa niður öll önnur verkefni og fara á fullt í þetta verkefni. Þá vissum við ekki hvort bóluefnið yrði samþykkt eða myndi virka,“ segir Gísli.

Í hringamiðju risaverkefnis

Controlant fékk fimm mánuði til að ljúka innleiðingu sem til stóð að gera á tveimur árum. „Þetta er alveg svakalega stórt verkefni og við vorum inni í hringamiðjunni á því ferli.“ Controlant þurfti að hundraðfalda framleiðslu sína og búa til lausn sem hentaði dreifingaráformum Pfizer en flytja þarf bóluefnið í 80 gráðu frosti.

Gísli bendir á að á þessu ári hafi Pfizer dreift tífalt fleiri einingum, sem þurfi að hafa eftirlit með bóluefninu, en af öllum öðrum lyfjum félagsins samanlagt. Eftirlitsbúnaður frá Controlant sé í um 600 þúsund kössum sem nýttir hafa verið til að flytja yfir tvo milljarða bóluefnaskammta Pfizer . Dreifingin er þegar orðin söguleg enda var fyrstu sendingunni af bóluefni Pfizer , þar með talið búnaðinum frá Controlant , komið fyrir á Smithsonian safninu í Washington í byrjun þessa árs.

Sjá einnig: Controlant á spjöld sögunnar

„Við þurftum að taka strategíska ákvörðun því við gátum ekki sett allt fyrirtækið í þetta eina verkefni. Það var því ákveðinn hópur sem einblíndi á Pfizer -verkefnið. Við vorum frekar lítið og þétt teymi sem lokuðum okkur inni í fimm mánuði og unnum dag og nótt. Á sama tíma vorum við að reyna að detta ekki á andlitið með alla hina kúnnana. Þetta var bilað álag frá júní og fram yfir áramót. Ég man til dæmis ekkert eftir aðfangadegi en konan mín segir mér að foreldrar mínir hafi verið í mat.“ Gísli segir að starfsmennirnir hafi verið tilbúnir að leggja mikið á sig enda var markmiðið göfugt og skýrt.

„Við skynjuðum mjög sterkt hvað okkar framlag skipti miklu máli í þessari baráttu við heimsfaraldurinn og það dreif okkur áfram. Það er ekki þannig að það sé einhver að ofan að biðja fólk um að gera meira. Það eru allir svo áhugasamir og vilja leggja allt sitt af mörkum til að láta þetta stóra og mikilvæga verkefni ganga upp. Það er frekar að maður þurfi að passa upp á að fólk sé að taka sér hvíld.“

„Ótrúlegur árangur“

Gísli segir eitt af lykilatriðunum í hversu vel hefur gengið í dreifingu bóluefna að Pfizer ákvað frá upphafi að fara ekki hefðbundna leið við dreifingu. Meðalafhendingartími Pfizer á bóluefninu hefur verið 1,4 dagar í þeim 140 löndum sem bóluefninu hefur verið dreift til. „99,998% af öllu bóluefni sem hefur verið afhent hefur verið hægt að nota. Svona tölur þekkjast ekki yfir höfuð í neinum flutningum. Þetta var sett upp á fimm mánuðum með viðkvæmustu vöru í heiminum. Það er ótrúlegur árangur,“ segir Gísli.

Án lausnar Controlant hefði það verið ómögulegt. „Þetta hefði í raun aldrei gengið upp með þessum hefðbundnu leiðum sem voru ráðandi áður en við komum til sögunnar. Það er ekki óalgengt með eldri lausnum að það taki 2-3 vikur að taka ákvörðun um hvort það megi nota lyf ef eitthvað kemur upp á í ferlinu. Við höfum náð að sjálfvirknivæða ferlið þannig að í 99,998% allra sendinga þarf Pfizer ekki að taka neinar ákvarðanir. Þegar tekið er á móti sendingum berst jafnframt tölvupóstur um hvort nota megi lyfið. Þegar Pfizer þarf að taka ákvörðun um frávik tekur það að meðaltali 20 mínútur.“ Controlant hafi að þessu leyti töluvert samkeppnisforskot á aðra.

Nánar er rætt við Gísla Herjólfsson um uppgang Controlant í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .