Bjarni Ármannsson, forstjóri Glitnis, telur það ekki raunverulegan valkost að taka einhliða upp evru hér á landi. Hann telur það tæknilega hægt en það muni ekki færa íslensku viðskiptalífi nein tækifæri eða betra umhverfi á nokkurn hátt. Þetta kemur fram í viðtali Viðskiptablaðsins við Bjarna í dag.

"Annað hvort sitjum við uppi með þessa krónu eða Ísland verður aðili að stærra myntsvæði sem getur ekki gerst með öðrum hætti en með inngöngu í Evrópusambandið ef við erum að horfa til evrunnar. Stjórnmálamenn verða að gera það upp við sig hvort þeir vilja pólitískt, því það að Íslendingar taki einhliða upp evru er einfaldlega of ótrúverðugt í stöðunni í dag. Hvað vilja menn svo gera ef evran verður of sterk? Henda henni aftur? Það verða alltaf sveiflur á gjaldeyrismörkuðum og menn leysa það ekki með svona aðgerðum," segir Bjarni í viðtalinu.

Það kemur einnig fram í viðtalinu við Bjarna að tímabært sé að skoða möguleika á skráningu Glitnis í Noregi þó hann treysti sér ekki til þess að segja til um hvenær það verður. Félagið hefur á síðustu tveimur árum keypt sex fyrirtæki í Noregi og samþætt sínum rekstri. Bjarni segir að þau séu að skila mjög góðri arðsemi í dag og eru ábyrg fyrir tæplega 20% af heildarhagnaði fyrirtækisins. "Því viljum við meina að við höfum á þessu tímabili bæði sýnt fram á getu okkar til að byggja upp viðskiptaeiningar og að kaupa viðskiptaeiningar til þess að samþætta þær starfsemi bankans. En við teljum að til þess að þetta gangi eftir þurfum við að hafa skarpari áherslur inni í viðskiptaeiningunum sem við erum að gera með þessu uppbroti og einnig þurfum við að hafa einingar sem eru að þjónusta viðskiptaeiningarnar, bæði hvað varðar stefnu og stefnumótun og eftirfylgni," segir Bjarni.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.