Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, fagnaði árangri Íslands í Eurovision á þingfundi í gærkvöldi. Sem kunnugt er Ísland eitt þeirra tíu landa sem komst áfram upp úr fyrri undankeppninni sem fór fram í gær.

„Það var tilhlýðilegt að ég í nafni þingmanna og af forsetastóli Alþingis, sendi liðsmönnum Pollapönks hamingjuóskir með frækilegan árangur í Eurovision í kvöld. Sérstakar kveðjur fékk auðvitað, háttvirtur 11. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður og 6. varaforseti Alþingis, Óttar Proppé, liðsmaður Pollapönks, enda erum við stolt af okkar manni,“ sagði forseti Alþingis á fésbókarsíðu sinni í gærkvöld og deildi tengli frá tilkynningu sem hann flutti af forsetastóli.

Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar, mun vera fyrsti þingmaðurinn sem tekur þátt í Eurovision.