Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað Óttarr Proppé, þingmann Bjartrar framtíðar, formann þverpólitísks þingmannahóps til að meta hvort og þá með hvaða hætti þörf sé á heildarendurskoðun á löggjöf um málefni innflytjenda.

Innanríkisráðherra mun óska eftir tilnefningum frá öllum flokkum á Alþingi en tilgangurinn með skipan þverpólitískrar nefndar um þessi mál er að tryggja sem best samráð um þau mikilvægu verkefni sem framundan eru í þessum málaflokki.

Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að ráðherra hafi nú þegar hafið það ferli að auka gæði og einfalda til muna móttöku og meðferð hælisleitenda til þess að gera ferlið mannúðlegra og sinna þeim betur sem á vernd þurfa að halda. Sú vinna tekur mið af framkvæmd í þeim löndum þar sem talið er að góður árangur hafi náðst. Þar eru Norðurlöndin framarlega en Noregur stendur einna fremst.