Borgarfulltrúinn og tónlistarmaðurinn Óttarr Proppé verður á framboðslista Bjartrar framtíðar í Reykjavík vegna Alþingiskosninganna í vor. Kemur þetta fram í tilkynningu.

Óttarr var kosinn í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir Besta flokkinn 2010. Hann hefur starfað við bóksölu frá árinu 1987 hjá Almenna Bókafélaginu, Máli og menningu, Eddu útgáfu, Pennanum Eymundssyni og bókaútgáfunni Crymogea.

Þá starfaði hann sem tónlistarmaður með hljómsveitunum: HAM, Funkstrasse, Rass, Dr. Spock o.fl. Hann hefur einnig starfað við kvikmyndagerð sem handritshöfundur, leikari og hljóðmaður.

Nefndin, uppstillingarnefnd á vegum Bjartrar framtíðar, vinnur nú að því að raða upp listum. Áður hefur komið fram að þingmennirnir Guðmundur Steingrímsson og Róbert Marshall verði í framboði fyrir Bjarta framtíð ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur, stjórnarformanni BF, Freyju Haraldsdóttur, framkvæmdastjóra NPA miðstöðvarinnar, Brynhildi Pétursdóttur, ritstjóra Neytendablaðsins.